Orkusalan á CHARGE Awards

Alþjóðlega ráðstefnan CHARGE Energy Branding var haldin í Lissabon dagana 14.-15. október en þar komu saman leiðtogar úr orkugeiranum allstaðar að úr heiminum til að ræða framtíð rafmagnsmarkaðarins. Um er að ræða vinsælan viðburð sem fjallar um uppbyggingu vörumerkja í orkuiðnaði. Fjöldi áhugaverðra fyrirlesara komu fram á ráðstefnunni í ár sem var vel sótt, bæði af íslenskum og erlendum starfsmönnum í orkugeiranum.

Við hjá Orkusölunni erum afar stolt af tilnefningu til verðlauna í flokknum "World’s Best Challenger Brand", en verðlaunin eru meðal virtustu verðlauna í orkugeiranum og viðurkenning fyrir þau fyrirtæki sem standa uppúr með framúrskarandi vörumerkjastjórnun. Þessi tilnefning er mikil viðurkenning á okkar starfi við að efla vörumerkið og auka samkeppnishæfni á rafmagnsmarkaði.

Á ráðstefnunni tók Heiða Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri sölu - og þjónustu hjá Orkusölunni og einnig markaðsstjóri fyrirtækisins, þátt í pallborðsumræðum þar sem rætt var um hvernig íslenskir raforkusalar vinna að því að aðgreina sig á markaði í sjálfbærum heimi. Heiða fjallaði um mikilvægi nýsköpunar, hversu miklu máli það skiptir að vera trúr sinni markaðsstefnu og hvernig Orkusalan heldur uppi stuðinu á Íslandi.

„Aðgreining á markaði er lykilatriði í því að byggja upp traust og tryggð viðskiptavina á mjög breytilegum orkumarkaði,“ sagði Heiða í umræðunum.