Orkusalan tilnefnd til Charge Awards
Orkusalan hlaut í dag tilnefningu til CHARGE Awards í flokknum „The Best Challenger Brand“ en verðlaunin eru þau virtustu í orkugeiranum á sviði vörumerkja. Verðlaunin eru veitt þeim orkufyrirtækjum sem standa framar en önnur vörumerki þegar kemur að mörkun fyrirtækja og eru verðlaunin veitt á alþjóðavísu.
Orkusalan er eina íslenska fyrirtækið sem hlaut tilnefningu í ár og er það mikilvægur áfangi fyrir bæði fyrirtækið sjálft og Ísland.
Fyrirtæki eins og E.ON, eitt stærsta orkufyrirtæki í heimi, hefur áður unnið þessi virtu verðlaun og því er það stór áfangi fyrir fyrirtæki á borð við Orkusöluna að hljóta tilnefningu í þessum flokki.
Mikilvæg verðlaun fyrir orkugeirann
„Verðlaun eins og CHARGE Awards eru mikilvæg fyrir orkugeirann á heimsvísu. Við erum því ótrúlega stolt og þakklát fyrir þessa tilnefningu en hún er ekki aðeins viðurkenning fyrir okkar farsæla markaðsstarf heldur einnig hvatning til þess að styrkja vörumerkið okkar enn frekar,“ segir Heiða Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu.