Nýir stjórnendur hjá Orkusölunni
Tveir nýir stjórnendur voru ráðnir til Orkusölunnar á undanförnum vikum.
Vigdís Hauksdóttir mun sinna starfi sölustjóra sem snýr að því að halda utan um söluteymi Orkusölunnar, skipuleggja sölu, kanna viðskiptatækifæri og sinna uppbyggingu viðskiptatengsla við fyrirtæki í viðskiptum. Vigdís starfaði áður hjá Landsvirkjun sem viðskiptastjóri en þar átti hún í daglegum samskiptum við viðskiptavini Landsvirkjunnar, ásamt endursamningum og þróun á nýjum vörum. Hún sat í samningateymi vegna raforkusölu til orkufreks iðnaðar. Vigdís sá einnig um innleiðingu nýrra viðskiptavina og hafði umsjón með innra eftirliti á núverandi viðskiptavinum og markaði.
„Raforkumarkaðurinn hefur tekið miklum breytingum að undanförnu og mér finnst spennandi að fá að taka þátt í að aðlaga starfsemi Orkusölunnar að þeim breytingum. Ég hlakka til að verða hluti af þessum heillandi vinnustað og geta boðið upp á besta stuðið til heimila og fyrirtækja í landinu," segir Vigdís.
,,Vigdís er öflugur leiðtogi sem mun styrkja vöxt Orkusölunnar til framtíðar. Vigdís gegnir lykilhlutverki í að þróa og innleiða stefnu fyrirtækisins þegar kemur að sölu og viðskiptastýringu og hjálpa okkur að ná settum markmiðum,” segir Heiða Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustu Orkusölunnar.
Eydís Dögg Eiríksdóttir hefur þá tekið við starfi þjónustustjóra. Hún stýrir spennandi verkefnum við að þjónusta núverandi viðskiptavini ásamt því að leiða umbætur á þjónustuferlum Orkusölunnar í samræmi við framtíðarsýn þess.
,,Ég er ótrúlega heppin að fá tækifæri til að vera hluti af frábærum hópi fólks sem starfar hjá Orkusölunni. Starf mitt sem þjónustustjóri er nýtt starf sem ég er mjög spennt að takast á við og móta,“ segir Eydís.
Eydís starfaði áður hjá Motus sem lykilviðskiptastjóri en þar sá hún meðal annars um umsjón og ábyrgð á viðskiptasafni stærri viðskiptavina, samningagerð og innleiðingar á þjónustuleiðum. Eydís sá einnig um sölukynningar á þjónustuleiðum, frávikagreiningar og áætlanagerð.
,,Eydís gegnir lykilhlutverki í að þróa og innleiða þjónustustefnu fyrirtækisins og munu hennar kraftar koma Orkusölunni enn lengra þegar kemur að því að veita framúrskarandi þjónustu á raforkusölumarkaði. Eydís er reynslumikill stjórnandi og er ég sannfærð um að hún, ásamt Vigdísi, muni styrkja stöðu Orkusölunnar, skapa ný tækifæri og hjálpa okkur við að koma Íslandi í stuð!“ segir Heiða Halldórsdóttir.
Eydís og Vigdís hafa báðar hafið störf á skrifstofu Orkusölunnar í Reykjavík.
Mynd: Elísabet Blöndal