Eydís Dögg Eiríksdóttir, þjónustustjóri
Eydís Dögg Eiríksdóttir tók við starfi þjónustustjóra í byrjun árs 2024. Hún stýrir spennandi verkefnum við að þjónusta núverandi viðskiptavini ásamt því að leiða umbætur á þjónustuferlum Orkusölunnar í samræmi við framtíðarsýn þess.
“Ég er ótúlega heppin að fá tækifæri til að vera hluti af frábærum hópi fólks sem starfar hjá Orkusölunni. Starf mitt sem þjónustustjóri er nýtt starf sem ég er mjög spennt að takast á við og móta. Ég starfaði lengi hjá fjármálafyrirtæki við stýringu á innheimtuþjónustu og kem inn með töluverða reynslu sem nýtist mér í nýju starfi samhliða því að fá tækifæri til að stækka og læra á nýja starfsemi," segir Eydís.
,,Verkefnin eru fjölbreytt þegar kemur að þjónustu til viðskiptavina okkar og ganga þau þvert á öll svið fyrirtækisins sem gerir starfið mjög áhugavert og skemmtilegt. Orkumarkaðurinn er gríðarlega spennandi og framundan eru krefjandi verkefni við að viðhalda framúrskarandi þjónustu með áframhaldandi þróun á þjónustulausnum og ferlum sem ég hlakka mikið til að takast á við með sterkri liðsheild Orkusölunnar," segir Eydís.
Hvað gerir Orkusöluna að góðum vinnustað?
,,Orkusalan er mjög lifandi og skemmtilegur vinnustaður sem einkennist af fagmennsku og gleði. Allir starfsmenn vinna þétt saman og starfsandinn er alveg frábær! Ég fann stax þegar ég hóf störf hvað samheldnin er mikil hjá starfsfólkinu og virkilega vel tekið á móti manni. Hjá Orkusölunni er lögð áhersla á virðingu og jafnrétti og vel gætt að jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Orkusalan er fámennur vinnustaður en með stóran hóp viðskiptavina og þegar kemur að ákvörðunum þá eru boðleiðir stuttar og mörg tækifæri til að hafa áhrif og taka ábyrgð," segir Eydís
,,Umhverfið er jákvætt og það er mjög skemmtilegt hvað vinnufélagar mínir eru virkir í allskonar sporti og oft skapast góðar umræður um boltann á milli þess að gripið er í pílu öðru hvoru á kaffistofunni - Þá vantar ekki keppnisskapið og gleðina!" segir Eydís sem veitir ríkjandi pílumeisturum Orkusölunnar harða samkeppni!
Hvað er stuð fyrir þér?
,,Hláturinn lengir lífið og styttir vinnudaginn. Það er stuð að vera í kringum fólk með góðan húmor og geta hlegið oft og mikið, hvort sem það er samvera með fjölskyldu, vinum eða vinnufélögum. Það er svo nauðsynlegt að hafa gaman samhliða öllu okkar daglega amstri og gera stundum grín að hlutunum, sjálfum sér og öðrum. Svo er ég sveitastelpa þannig að ég verð að nefna að almennilegt sveitaball er gamalt og gott stuð fyrir mér," segir Eydís.