Heiða Halldórsdóttir, markaðsstjóri og sviðsstjóri einstaklingssviðs
Heiða hóf störf hjá Orkusölunni í janúar 2019 sem markaðsstjóri og hefur því starfað hjá fyrirtækinu í fjögur ár.
„Mín helstu verkefni snúa að uppbyggingu vörumerkis Orkusölunnar með það að markmiði að skapa virði fyrir viðskiptavini fyrirtækisins. Markaðsmál snerta allar deildir fyrirtækisins og er því mikilvægt að markaðsmál séu skoðuð á heildrænan hátt,“ segir Heiða. „Mín helsta áskorun í starfi er að byggja upp vitund og ímynd vörumerkisins en þessir tveir þættir hafa áhrif á vörumerkjavirði Orkusölunnar. Við gerum því reglulega markaðsrannsóknir til að kanna árangur markaðsstarfsins og metum út frá þeim niðurstöðum hver næstu skref eru.“
Heiða er einnig sviðsstjóri einstaklingssviðs en þar er hennar helsta áskorun að tryggja þjónustugæði Orkusölunnar og að viðhalda tryggð viðskiptavina. „Þjónustugæði skipta öllu máli þegar kemur að því að viðhalda tryggð viðskiptavina og er mikilvægt að hlusta á viðskiptavini fyrirtækisins og greina þeirra þarfir,“ segir Heiða en á hennar sviði eru reglulega gerðar þjónustukannanir með það að markmiði að greina þarfir viðskiptavina Orkusölunnar.
Heiða hefur einnig tekið þátt í uppbyggingu hleðslustöðvaverkefnis Orkusölunnar en þar hefur hún sett á sig verkefnastjórahattinn og leitt það verkefni. „Heimastuð er skemmtilegt verkefni sem er unnið náið með öðrum deildum fyrirtækisins. Það hefur verið frábært að fá að vinna með hleðsluteymi Orkusölunnar en þar höfum við þurft bæði að vinna og læra hratt!" segir Heiða.
Hvað gerir Orkusöluna að góðum vinnustað?
„Það sem gerir Orkusöluna að frábærum vinnustað er fyrst og fremst starfsfólkið. Það er ekki sjálfgefið hvað það er góður starfsandi hjá okkur en það rímar við niðurstöður mannauðsmælinga Orkusölunnar þar sem við sjáum að það mælist mjög mikil starfsánægja hjá fyrirtækinu. Orkusalan er fjölskylduvænn vinnustaður, það er vel hugsað um starfsfólk og það ríkir mikil liðsheild innan hópsins sem mér finnst skipta mjög miklu máli,“ segir Heiða.
Hún bætir við: „Ég er líka ótrúlega þakklát fyrir teymið mitt en við erum fjórar sem störfum á þessu sviði og það ríkir mikil liðsheild og virðing innan teymisins. Mér finnst skipta miklu máli að allir fái að segja sína skoðun og virk hlustun er lykill að góðu samstarfi.“
Hvað er stuð fyrir þér?
„Stuð fyrir mér er rafmögnuð tilfinning sem veldur spennu, fiðring og gleði. Stuð kjarnar andrúmsloftið sem við vinnum í en starfsfólk Orkusölunnar eru sérfræðingar í að halda uppi stuðinu!" segir Heiða.