Sólrún Jóna Böðvarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs
Sólrún hefur starfað hjá Orkusölunni síðan árið 2023 og hefur því starfað hjá fyrirtækinu í rúmt ár en hvernig er dæmigerður vinnudagur hjá Sólrúnu?
„Það er erfitt að lýsa týpískum vinnudegi því dagarnir eru mjög ólíkir sem gerir þá um leið svo litríka, verkefnin eru fjölbreytt og lifandi sem gerir starfið einstaklega skemmtilegt,“ segir Sólrún sem nefnir einnig að orkugeirinn sé spennandi geiri. „Umhverfið er kvikt og ört, sem krefst hraðrar ákvarðanatöku og um leið sveigjanleika.“
„Ég ber ábyrgð á daglegri fjármálastjórn, hef umsjón með rekstrinum og öllu sem því fylgir, eins og rekstraráætlanir, uppgjör og fleira. Ég legg mikið upp úr úrbótum í rekstri, teymisvinnu, gæðum og að takmarka áhættu með skilvirku verklagi en hluti af því er að þróa og viðhalda stafrænum lausnum. Ég tel að reynsla mín og menntun veiti mér góðan og öflugan bakgrunn til að takast á við þessi verkefni,“ segir Sólrún.
Hvað gerir Orkusöluna að góðum vinnustað?
„Orkusalan er frábær vinnustaður. Það sem einkennir Orkusöluna er gleði og gróska. Fyrirtækjamenningin er frábær sem segir allt um það hversu frábært starfsfólk vinnur hér. Orkusalan er fjölskylduvænn vinnustaður með frábæru og skemmtilegu fagfólki sem skapar góðan og jákvæðan anda. Verkefnin eru fjölbreytt sem endurspeglast í skemmtilegum, ólíkum og orkumiklum vinnudögum,“ segir Sólrún
Hvað er stuð fyrir þér?
„Stuð er þegar lífið er skemmtilegt og spennandi, þegar ég finn fyrir gleðinni, frelsinu og orkunni. Þess vegna fæ ég mikið af stuði hjá Orkusölunni,“ segir Sólrún sem er stundum titluð Stuðdrolla Orkusölunnar!