Vigdís Hauksdóttir, sölustjóri

Vigdís Hauksdóttir er sölustjóri Orkusölunnar en hún hóf störf hjá fyrirtækinu í janúar 2024.

,,Mín helstu verkefni snúa að því að halda utan um söluteymið með því að skipuleggja sölu og stýringu viðskiptatengsla og móta framtíðarsýn fyrirtækisins þegar kemur að sölu til viðskiptavina," segir Vigdís.

Hjá Vigdísi er enginn vinnudagur eins en þeir eiga það þó allir sameiginlegt að vera bæði krefjandi og skemmtilegir.

,,Ég fylgist vel með söluáætlunum og þeim markmiðum sem við teymið setjum hverju sinni og tryggi að við séum samkeppnishæf á markaði. Það er alltaf hægt að bæta ferla og finnst mér mjög gaman að búa til betri ferla og nýta þau gögn sem við höfum til að greina markaðinn okkar. Með bættum ferlum fáum við betri yfirsýn. Ég fylgist með hvernig raforkumarkaðurinn þróast og kanna hvort ný viðskiptatækifæri séu til staðar fyrir Orkusöluna." segir Vigdís.

Hvað gerir Orkusöluna að góðum vinnustað?

,,Ég myndi segja að STUÐIÐ sé það sem gerir Orkusöluna að góðum vinnustað, hér er alltaf stutt í hlátur og almenna gleði. Fólkið er þvílíkur bónus inn í lífið og gerir það vinnustaðin að glimmeri, allir eru til í hlátur, pepp, rækt og að aðstoða hvenær sem er. Liðsheildin er því gríðarlega öflug," segir Vigdís.


,,Hér er lögð mikil áhersla á að öllum líði vel og hver og einn einstaklingur fái að vaxa, stækka og blómstra í starfi. Vinnustaðurinn er mjög fjölskylduvænn og það skiptir mig máli að hafa sveigjanlegan vinnutíma," segir Vigdís.

Orkusalan - stuðprófíll

Hvað er stuð fyrir þér?

Vigdís er mikill stuðpinni og er þekkt fyrir að taka orminn á dansgólfinu. ,,Stuðið er allstaðar ef þú vilt það. Góður matur, vín og bros er þvílík gleði. En fyrir mér byrjar stuðið með hlátri og gleði og þróast út í glimmer og bombur úr því færum við okkur í orminn og eitt splittstökk," segir Vigdís.