Stuðreynd 12
Smyrlabjargaá rennur um Suðursveit. Hún er að meginstofni dragá en jökulsá að nokkru. Smyrlabjargaá fær hluta vatns frá jökultungu úr Heinabergsjökli og eru örar breytingar á vatnsrennsli frá jöklinum. Heinabergsjökull hefur verið á undanhaldi undanfarna áratugi og því var fyrirhugaðri virkjun um miðjan sjötta áratug frestað. Þótti nauðsynlegt að mæla rennsli á lengra tímabili áður en framkvæmdir hæfust.
Virkjunin var reist nálægt bænum Smyrlabjörgum og hófst vinna í ágúst 1968. Norðurverk hf. sá um verkið og lauk við steypuvinnu sama haust. Framkvæmdir gengu þokkalega árið eftir og var áformað að ræsa vélar snemma í ágúst 1969. Það tókst ekki vegna mikilla rigninga sem töfðu en í september voru vélarnar gangsettar. Kom þá í ljós bilun í þrýstilegukransi á öxli hverfils. Var um efnisgalla að ræða og þurfti að fá nýjan krans að utan. Endanlegar prófanir á vélum fóru fram undir lok september og virkjunin var formlega ræst 3. október 1969.
Í upphafi var búist við að afkastageta virkjunarinnar yrði 1.000 kW og er það skráð uppsett afl hennar. Með því að hækka stíflu auk annarra aðgerða jókst afkastageta í 1.200 kW. Síðar var vatnshjóli hverfils breytt og með því komst afkastageta í 1,3 MW við bestu skilyrði.
Inntakslón er einnig miðlunarlón og stálpípa liggur úr miðlunarlóni í vélar. Árið 1974 var miðlun aukin um nær helming með því að stífla rennsli úr vötnum uppi á heiðinni fyrir ofan Smyrlabjargaá.
Orkan sem framleidd er í Smyrlabjargárvirkjun samsvarar rafmagnsnotkun 2.400 meðalstórra heimila á ári.