Stuðreynd 13
Lagarfossvirkjunin er í Lagarfljóti á Fljótsdalshéraði og dregur nafn af samnefndum fossi sem áður rann þarna.
Lagarfljót á upptök í Vatnajökli, Eyjabakkajökli, og nefnist þar Jökulsá í Fljótsdal. Eftir að hún fellur í Löginn, sem er 52 km2 stöðuvatn, nefnist vatnsfallið Lagarfljót. Margar dragár falla í fljótið og eru helstar Kelduá, Grímsá og Eyvindará sem renna í það að austanverðu en að norðanverðu Bessastaðaá og Rangá.
Vorið 1971 var ákveðið að hefja vinnu við virkjun Lagarfoss. Þegar um haustið hóf Norðurverk hf. byggingarhluta verksins.
Á árinu 1972 var grafinn 480 m aðrennslisskurður fyrir þrýstistokk og stöðvarhús. Auk þess var laxastigi steyptur. Jarðvegsstíflu var komið fyrir ofan við Lagarfoss þar sem fljótið fellur úr Steinsvaðsflóa. Stífla þessi er 100 m löng og mesta hæð hennar er um 10 m.
Byggingavinnu lauk sumarið 1974 og niðursetningu á vélbúnaði var nær lokið í árslok. Hverfill var gangsettur 15. febrúar 1975 og 4. mars sama ár hófst orkuframleiðsla. Formleg afhending fór fram 25. september 1975.
Í febrúar árið 2005 fékkst formlegt virkjunarleyfi fyrir stækkun Lagarfossvirkjunar. Rarik hafði þá óskað eftir að stækka Lagarfossvirkjun á Fljótsdalshéraði um allt að 20 MW. Þegar virkjunin var tekin í notkun árið 1975 hafði verið gert ráð fyrir að hægt væri að stækka hana. Með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar eykst rennsli um Lagarfljót sem gerði þessa stækkun fýsilega. Stækkuð virkjun var tekin í notkun í október 2007 og þá jókst orkuvinnsla um 130 GWst á ári sem var tvöföldun á rafmagnsframleiðslu fyrirtækisins á þeim tíma.
Uppsett afl beggja virkjana í dag er 27,2 MW.