Lagarfossvirkjun
Lagarfossvirkjun
Lagarfossvirkjunin er í Lagarfljóti á Fljótsdalshéraði og dregur nafn af samnefndum fossi sem áður rann þarna.
Lagarfljótið
Lagarfljót á upptök í Vatnajökli, Eyjabakkajökli, og nefnist þar Jökulsá í Fljótsdal. Eftir að hún fellur í Löginn, sem er 52 km2 stöðuvatn, nefnist vatnsfallið Lagarfljót. Margar dragár falla í fljótið og eru helstar Kelduá, Grímsá og Eyvindará sem renna í það að austanverðu en að norðanverðu Bessastaðaá og Rangá.
Rennsli fljótsins jafnast mjög við að fara gegnum Löginn. Fljótið ber dragáreinkenni niður við Lagarfoss en Jökulsá og Lögurinn draga nokkuð úr þeim. Vatnasvið fljótsins fyrir ofan Lagarfoss er 2.800 km2 og meðalrennslið að jafnaði um 115 m3/sek.
Upphaf virkjuninnar
Undir lok sjöunda áratugarins var ástand á Austfjörðum þannig að mestallt rafmagn var framleitt með dísilvélum. Á þeim árum var olíuverð hátt og því dýrt að framleiða rafmagn með olíu. Þess var vænst að með virkjun Lagarfljóts lyki þessum hallarekstri. Var því mikið hagsmunamál að ráðist yrði í Lagarfossvirkjun, ekki aðeins fyrir Austfirðinga, heldur einnig fyrir raforkunotendur í landinu öllu.
Vorið 1971 var ákveðið að hefja vinnu við virkjun Lagarfoss. Þegar um haustið hóf Norðurverk hf. byggingarhluta verksins.
Á árinu 1972 var grafinn 480 m aðrennslisskurður fyrir þrýstistokk og stöðvarhús. Auk þess var laxastigi steyptur. Jarðvegsstíflu var komið fyrir ofan við Lagarfoss þar sem fljótið fellur úr Steinsvaðsflóa. Stífla þessi er 100 m löng og mesta hæð hennar er um 10 m.
Byggingavinnu lauk sumarið 1974 og niðursetningu á vélbúnaði var nær lokið í árslok. Hverfill var gangsettur 15. febrúar 1975 og 4. mars sama ár hófst orkuframleiðsla. Formleg afhending fór fram 25. september 1975.
Í febrúar árið 2005 fékkst formlegt virkjunarleyfi fyrir stækkun Lagarfossvirkjunar. Rarik hafði þá óskað eftir að stækka Lagarfossvirkjun á Fljótsdalshéraði um allt að 20 MW. Þegar virkjunin var tekin í notkun árið 1975 hafði verið gert ráð fyrir að hægt væri að stækka hana. Með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar eykst rennsli um Lagarfljót sem gerði þessa stækkun fýsilega. Stækkuð virkjun var tekin í notkun í október 2007 og þá jókst orkuvinnsla um 130 GWst á ári sem var tvöföldun á rafmagnsframleiðslu fyrirtækisins á þeim tíma.
Uppsett afl beggja virkjana í dag er 27,2 MW.