Skeiðsfossvirkjun
Skeiðsfossvirkjun
Virkjunin stendur í Fljótum (í Skagafirði).
Fljótaá á Norðurlandi
Fljótaá á upptök í fjöllum norðanvert á Tröllaskaga, einkum sunnan við Lágheiði. Áin rennur í gegnum Stíflu, sérstæðan dal sem er 2 km að lengd og 1 km að breidd. Dalsmynnið að norðanverðu er girt háum hólum, Stífluhólum, og hefur áin brotið sér leið í gegnum hólana á 1 km kafla. Þaðan rennur hún í Miklavatn og síðan út í Fljótavík. Fljótaá er dragá og er því vatnsmagn hennar breytilegt eftir árstíðum. Vatnasvið mun vera um 110 km2.
Siglfirðingar fengu snemma á öldinni augastað á virkjun Fljótaár. Árið 1935 var bæjarstjórn Siglufjarðar heimilað að reisa og reka raforkustöð við Fljótaá og leggja háspennutaugar til Siglufjarðar.
Skeiðsfossvirkjun I
Framkvæmdir hófust sumarið 1942 og var Fljótaá stífluð í gljúfrum um 300 metrum frá þeim stað er hún rennur inn í Stífluhóla. Í stöðvarhúsinu var komið fyrir 2.350 hestafla (1,8 MW) Francis-hverfli og gert ráð fyrir annarri sams konar samstæðu er gæti tengst sömu aðrennslispípu. Töluverðar tafir urðu vegna erfiðra aðdrátta í heimsstyrjöldinni og straumi var hleypt frá Skeiðsfossvirkjun til Siglufjarðar 29. mars 1945. Seinni vélasamstæðan var ekki sett upp fyrr en tæpum 10 árum síðar eða í ágúst 1954. Var þá samanlagt vélaafl 3,2 megavött.
Skeiðsfossvirkjun II
Á árunum eftir 1960 var farið að huga að frekari virkjunarframkvæmdum við Fljótaá. Var ákveðið að reisa 1,7 MW virkjun við Stóru-Þverá. Vinna við hina nýju virkjun hófst 1974. Reist var tuttugu metra löng yfirfallsstífla með fjórum flóðgáttum, þremur lokum og laxastiga. Út frá henni í báðar áttir voru jarðstíflur og varnargarður að austanverðu. Þá myndaðist lón og frá því var grafinn eins kílómetera langur skurður að inntakslóni. Frá inntaki liggur 520 metra löng steinsteypt pípa, tæpir tveir metrar í þvermál, að átján metra háum steinsteyptum jöfnunarturni. Frá honum liggur 85 metra löng þrýstivatnspípa úr stáli og er hún tveir metrar í þvermál. Fallhæð er því rúmir þrjátíu metrar. 20. október 1976 tók Skeiðsfossvirkjun II formlega til starfa.
Rarik tekur við
Undir lok ársins 1990 skipaði bæjarstjórn Siglufjarðar nefnd til viðræðna við Rafmagnsveiturnar um sölu á virkjuninni, rafveitunni og jafnvel hitaveitunni. Samningur um kaup RARIK á Rafveitu og Hitaveitu Siglufjarðar var undirritaður 7. apríl 1991. Eignuðust Rafmagnsveiturnar Skeiðsfossvirkjanir báðar og allt orkuveitukerfi á Siglufirði.
Eftir að RARIK tók við rekstrinum var ráðist í umfangsmiklar endurbætur. Nýjum botnloka var komið fyrir í stíflu 1994, inntak lagfært, ristar endurnýjaðar, svo og rafkerfi. Til þess þurfti að tæma forðalónið. Samhliða þessu var gangráður og rafall í vélasamstæðu endurnýjaður ásamt ýmsum þéttingum og fóðringum fyrir vatnsvélina. Árið 1995 var unnið að umfangsmiklum endurbótum á Skeiðsfossvirkjun II, gerðar voru sams konar lagfæringar á vélasamstæðu og vatnsvél og í Skeiðsfossvirkjun árið áður. Árið 1996 var Skeiðsfossvirkjun búin undir fjargæslu og fjarstýringu.
Uppsett afl beggja virkja er 4,8 MW.