Grímsárvirkjun

Grímsárvirkjun
Grímsárvirkjun virkjar rennsli Grímsár í Skriðdal eins og nafnið gefur til kynna, en Grímsá er dragá, sem á upptök í fjallgarði milli Austfjarða og Fljótsdalshéraðs og fellur í Lagarfljót við Vallanes.
Upphaf virkjunarinnar
Með lögum frá Alþingi árið 1952 var Rafmagnsveitum ríkisins heimilað að virkja Grímsá á Völlum eða Fjarðará í Seyðisfirði með allt að 2000 hestafla orkuveri. Frá því átti að leggja aðalorkuveitu til Seyðisfjarðarkaupstaðar, Neskaupstaðar og Eskifjarðar. Eftir nokkrar rannsóknir var á vormánuðum 1954 ákveðin 2,8 MW virkjun í Grímsá við Grímsárfoss sem var um 18 m hár.

Árnar í kring
Grímsáin fær nafn eftir að Geitdalsá og Múlaá hafa fallið saman í einn farveg í Skriðdalnum. Múlaá á upptök í Ódáðavatni og nefnist þá Öxará. Þaðan fellur áin niður heiði er nefnist Öxi og í Skriðuvatn og nefnist eftir það Múlaá. Vatnasvið Grímsár er 500 km2 við virkjunina. Rennsli er æði sveiflukennt og er mesta rennsli um 300 rúmmetrar á sekúndu sem er tífalt meðalrennsli árinnar. Minnsta rennsli er aðeins liðlega 1 rúmmetri á sekúndu.
Framkvæmdir
Framkvæmdir við virkjunina hófust sumarið 1955. Vegna staðhátta var ákveðið að reisa neðanjarðarstöð. Flúð eða stallur er 35 m fyrir ofan fossbrún og var reist 400 m löng stífla fyrir ofan þessa flúð og er hún 12 m þar sem hún er hæst í árfarveginum.
Hverfill er af Francis gerð og er með lóðréttan ás. Stöðvarhús er tveggja hæða bæði neðan- og ofanjarðar. Á efri hæð er stjórnklefi, verkstæði og á neðri hæð er vélasalur. Frárennslisgöng voru sprengd út í gil neðan við Grímsárfoss og eru um 30 m löng.
